Fréttir

TC2 – stafrænn vefstóll kominn á Blönduós

21.10.2016

 

Þekkingarsetrið á Blönduósi hefur fest kaup á stafrænan vefstól að gerðinni TC2 sem er framleiddur í Noregi. Vefstóllinn verður staðsettur á Blönduósi í húsakynnum textillistamiðstöðvarinnar í Kvennaskólanum og mun vonandi komast í notkun sumarið 2017.

 

Þetta er fyrsti stafræni vefstóllin að þessari gerð sem keyptur er til Íslands og verður mikil og góð viðbót við þá aðstöðu sem fyrir er í textíllistamiðstöðinni. Vefstóllinn er stafrænn, sem þýðir að hann er tengdur við tölvu og munstrið eða myndin sem vefa á, er fyrst unnin í tölvu og síðan ofin nákvæmlega eins í vefstólnum. Með stafrænum vefstól er í raun búið að sameina Jacquard vefstólinn, sem fundinn var upp í Frakklandi 1801, og tölvutæknina.

 

Dæmi um listaverk unnið í rafrænum vefstól. Mynd tekin af heimasíðu Digital Weaving Norway, www.digitalweaving.no 

 

Stafrænn vefstóll hentar bæði í textílhönnun og til að vefa einstök veflistaverk. Horft er til þess að háskólar, framhaldsskólar, textílhönnuðir, vefarar og veflistamenn geti nýtt sér þennan vefstól og aðstöðuna í Kvennaskólanum í framtíðinni.

   ​