News

Ársfund Þekkingarsetursins 2017

31.05.2017

Ársfundur Þekkingarsetursins var haldinn í Kvennaskólanum þann 30. maí. Á dagskrá voru venjuleg ársfundastörf, m.a. kynning á starfsemi setursins 2016. 

 

Starfsemi Þekkingarsetursins var fjölbreytt á sl. ári. Unnið var samkvæmt starfsáætlun og með samþykktir setursins að leiðarljósi: Að nýta aðstæður og svæðisbundna sérstöðu til þess að stuðla að aukinni almennri þekkingu og fjölbreytni atvinnulífs með fræðastarfi, eflingu háskólamenntunar, vísindarannsóknum og nýsköpun á sérsviðum setursins, strandmenningu, laxfiskum og textíl. Reynsla undanfarinna ára hefur leitt í ljós að sóknarmöguleikar Þekkingarsetursins og sérstaða eru þó helst á sviði textíls. Með aukinni fjárveitingu frá ríkissjóði sem veitt var á árinu gafst tækifæri til að efla þá starfsemi sem komin var á því sviði og þróa ný verkefni. 

 

Gerður var samstarfssamningur við Textílsetrið varðandi eflingu textíllistamiðstöðvarinnar, þróun textílnáms, ráðningu sérfræðings í tímabundið verkefni við skráningu vefnaðarmunstra, kaup á rafrænum vefstóll TC2 frá Noregi og ráðningu sameiginlegs starfsmanns á skrifstofu í Kvennaskólanum. Gerð var samstarfsyfirlýsing við Heimilisiðnaðarsafnið um skráningu upplýsinga tengdum munum safnsins og aðgengi fyrir listamenn að safninu. 

 

Starfsmenn Þekkingarsetursins tóku  þátt í undirbúningi Prjónagleði, prjónahátíðar sem haldin var á Blönduósi í júní, kynntu starfsemi í Kvennaskólanum á ráðstefnu Nordic Textile Arts í Bergen, Noregi og heimsóttu Textílsetur í Austurríki, Textiles Zentrum Haslach. 

 

Unnið var að ýmsum öðrum verkefnum á árinu. Starfsmenn Þekkingarsetursins voru m.a. með dagskrá tengda náttúruvísindum og ullarvinnslu þegar Háskólalest Háskóla Íslands stoppaði á Blönduósi í maí, tóku þátt í verkefni vegna útgáfu tvítyngds tímarits um listir og listamanna á Norðvesturlandi, og hafa haft umsjón með námsverinu í Kvennaskólanum. 

 

Ársskýrsla 2016 er aðgengileg á heimasíðu Þekkingarsetursins.