Textíll

 

Sumarið 2016 hofst tímabundið verkefni undirbúning vegna skráningar á vefnaðarmunstrum sem tilheyra Kvennaskólanum á Blönduósi og Textílsetur Íslands. Ragnheiður Björk Þórsdóttir vefnaðarkennari og veflistamaður fer með verkefnið á vegum Þekkingarsetursins og Textílsetursins, en það mun leggja grunninn af rannsóknum á sviði vefnaðar og vefnaðarkennslu í framtíðinni. 

 

Í Kvennaskólanum á Blönduósi er til mikið magn af vefnaðarmunstrum og prufum, bæði frá því á dögum skólahalds í Kvennaskólanum og einnig sem hafa verið gefin skólanum til varðveislu. 

 

Til eru öll frumgögn fjögurra íslenskra vefara og eins vefnaðarkennara sem starfaði við skólann á sjötta og sjöunda áratug seinustu aldar. Gögnin eru í formi handskrifaðra vefnótna, vefnaðarprufa og uppskrifta fyrir vefnað í vefstól. Einnig hefur Textílsetur Íslands fengið að gjöf allar prufur og vefnótur frá Vefstofu Guðrúnar Jónasardóttur vefnaðarkennara sem starfaði um miðbik seinustu aldar, og einnig kennslugögn frá kennsluferli Guðrúnar í Textíldeild Myndlistar- og handíðaskólan Íslands. Kennslugögn í vefnaði, munstur og sýnishorn sem notuð voru á þeim áratugum sem Kvennaskólinn á Blönduósi starfaði, eru öll til og hafa Vinir Kvennaskólans haldið utan um þau gögn.

 

Umfang gangnanna er mikið og er hér um að ræða yfir 1000 handskrifaðar blaðsíður af vefnótum og uppskriftum fyrir vefnað og yfir 1500 vefnaðarprufur sem þegar er komar til varðveislu. Hér er um ómetanleg frumgögn að ræða og afar mikilvægt að varðveita, ekki síst vegna þess hversu mikilvægur vefnaður var hér á landi frá landnámi og upp á 20. öldina. Þau hafa því menningar-, hönnunar- og sagnfærðilegt gildi sem mikilvægt er að skrásetja.

 

Þegar hafa um 70 munstur og vefnótuð verið greind og undirbúin fyrir skrásetningu. Ætlunin er að setja vefnóturnar upp bæði samkvæmt kerfi því sem tíðkast á Norðurlöndum og því kerfi sem notað er í Bandaríkjunum, Kanada og víða en kerfin eru frábrugðin að nokkru leiti. 

 

Stefnt er að allar vefnótur og uppskriftir fyrir vefnað sem skráð verða munu vera aðgengilegar fyrir nemendur og listamenn sem dvelja í textíllistamiðstöðinni í Kvennaskólanum í framtíðinni. Einnig er áætlað að heildarsafninu verði fundinn staður á Blönduósi í tengslum við Textílsetur og Heimilisiðnaðarsafnið, gögnin útgefin eða hýst á rafrænu svæði.