• Icelandic
  • English

Fréttir

Prjónagleði haldin á Blönduósi 8. - 10. júní 2018

12.06.2018

 

Árlega prjónahátíðin Prjónagleði var haldin af Textílsetri Íslands og samstarfsaðilum á Blönduósi 8. - 10. júní. Prjónagleðin var eitt af 100 verkefnum sem valin voru í dagskrá vegna ,,100 ára Fullveldis Íslands" árið 2018. 

 

Í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands var aðgangur ókeypis á hátíðarsvæðið og markaðstorg sem staðsett var í Félagsheimilinu á Blönduósi. Boðið var upp á fjölda mismunandi prjónatengdra námskeiða í Kvennaskólanum auk þriggja fyrirlestra, ,,Er prjón hamingjuaukandi?", ,,Bláklædda konan frá Ketilsstöðum" og ,,Uppspuni – opnun á nýrri spunaverksmiðju".

 

Einnig var haldin prjónasamkeppni „hönnuð peysa“ með þemanu „100 ára fullveldi Íslands“. Markmið samkeppninnar var að draga fram samlíkingu á milli fortíðar og nútíðar í menningu og sögu lands og þjóðar. Þær peysur sem komast í úrslit voru til sýnis á hátíðinni, ásamt prjónaverkum grunnskólanemenda í A-Hún, sem einnig hafa verið unnin af þessu tilefni.

 

Tilkynnt var um vinningshafana á hátíðarkvöldverði Prjónagleðinnar á Hótel Blöndu á laugardagskvöld. Það var Eliza Reid, forsetafrú, sem afhenti að lokum verðlaun fyrir Fullveldispeysuna, en það var Kristjana K. Jónsdóttir sem hlaut fyrstu verðlaun. Ásta G. Kristjánsdóttir og Svanhildur Bjarnadóttir voru í öðru og þriðja sæti. 

 

Prjónagleði var fyrst haldinn á Blönduósi árið 2016. Um 350 gestir komu til að skoða sér um á hátíðarsvæðið árið 2018. Um 60 manns skráðu sig á námskeið og tæp 80 manns mættu til kvöldverðarins. 

 

Eliza Reid, Jóhanna E. Pálmadóttir og Fullveldispeysan. Ljósm: Kristín Guðmannsdóttir.