• Icelandic
  • English

Fréttir

Ársfundur Þekkingarsetursins haldinn í Kvennaskólanum þann 13. júní.

14.06.2018

 Á dagskrá voru venjuleg ársfundastörf, þar á meðal kynning á starfsemi setursins 2017. 

Starfsemi setursins hefur einkennst af textíltengdum verkefnum á árinu. Áhersla var lögð á þróun rannsókna og áframhaldandi uppbyggingar textíllistamiðstöðvar í Kvennaskólanum. Alls dvöldu 91 listamenn í Kvennaskólanum á árinu, þar á meðal styrkhafar á vegum Kulturkontakt Nord auk nemenda frá Listaháskóla Íslands og Håndarbejdes Fremmes UCC í Danmörku. 

 

Uppbygging listamiðstöðvarinnar hefur verið eitt meginverkefnið frá upphafi og er í samstarfi við Textílsetur Íslands.  Með listamiðstöðinni gefst tækifæri til að uppfylla mörg af markmiðum setranna hvað varðar eflingu náms, þróun rannsókna og fræðslumiðlunar til almennings. Að geta boðið upp á þekkingu sérfræðinga, gisti- og vinnuaðstöðu fyrir öfluga listamenn, nemendur og kennara á sviði textíls í svo sögulegu húsi sem Kvennaskólinn er, veitir starfseminni mikla sérstöðu. Námskeið, fyrirlestrar og viðburðir með listamönnum sem dvelja í listamiðstöðvum á Blönduósi og á Skagaströnd eru mikill ávinningur fyrir samfélögin og menningarlíf á Norðurlandi vestra í heild. 

 

Þann 1. september hófst hagnýtt rannsóknaverkefni Bridging Textiles to the Digital Future" sem hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís. Í því felst m.a. skráning á vefnaðarmunstrum sem tilheyra Textílsetri Íslands, Vinum Kvennaskólans, Heimilisiðnarsafninu o.fl. í rafrænan gagnagrunn, uppsetning vefsvæðis þar sem mynstrin verða aðgengileg fyrir textíllistamenn, hönnuði og nemendur á sviði textíls og miðlun sérþekkingar á TC2 rafrænum vefstól sem staðsettur er í Kvennaskólanum. Ljóst er að hér er um verkefni að ræða sem hefur bæði menningarlegt- og atvinnulegt gildi og er einstakt á landsvísu. Þar með hefur verið tekið mikilvægt skref í að koma á textíltengdu rannsókna- og nýsköpunarverkefni á svæðinu, sem mun leggja grunn að atvinnusköpun til framtíðar. 

 

Önnur starfsemi á árinu voru m.a. átaksverkefni á sviði ferðamála í samstarfi við Ferðamálafélag A-Hún og tilraunaverkefnið ,,Heimsókn listamanna í skóla". Starfsmenn setursins höfðu einnig umsjón með námsveri í Kvennaskólanum í samstarfi við Farskóla NV. Alls voru haldinn 92 fjarpróf á árinu. Stöðug aukin aðsókn framhalds- og háskólanema sem nýta sér námsverið og taka prófin í Þekkingarsetrinu sýnir mikilvægi þess að hafa náms- og prófaðstöðu fyrir nemendur í heimabyggð.

 

Starfsskýrslur setursins vegna ársins 2017 munu verða aðgengilegar hér á heimasíðu Þekkingarsetursins.